<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 27, 2004

Spennandi laugardagur. 

Já það er óhætt að segja að morgundagurinn eigi eftir að vera spennandi fyrir mig þar sem margt er að gerast. Í fyrsta lagi spilum við á móti toppliðinu í deildinni sem hafa verið að rúlla yfir hvert liðið á fætur öðru eftir áramót en þeir fengu víst einhverja rosa skyttu sem skorar yfir 10 mörk í leik. Í annan stað spilar Fram mitt ástkæra félag bikarúrslitaleik á móti KA og í þriðja lagi þá fáum við að vita með enn eina íbúðina en formaður klúbbsins er í dag á fundi með einhverju fólki varðandi íbúð fyrir mig og Fríðu sem mun þá vera laus til innflutnings 1 mars (sem er á mánudaginn). Vissulega verður þetta örugglega strembið á öllum vígstöðum en mér finnst nú að ég og Fríða eigum það skilið að heilladísirnar snúist aðeins með okkur á morgun og gefi mér ærlega ástæðu til þess að fagna annaðkvöld.

Sendið mér og Fríðu því góða strauma og baráttukveðjur.

Maggi

P.s. Allir sem vetlingi geta valdið eiga að mæta í bláu niðrí laugardalshöll og öskra áfram Fram en þeir sem fyrir slysni eru staðsettir í Kaupmannahöfn og nágreni mega mæta í grænu í Sundbyøsterhallen og öskra Team Amager.
Skilaboð

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

2 dagar í bikarúrslitaleik!!! 

Já nú eru bara 2 dagar í að Fram mæti KA í leik ársins heima á Íslandi.... þar sem að ég hef verið þeirrar blessunar aðnjótandi að spila þennan leik 2 á ævinni og bæði upplifað það að tapa og sigra þá veit ég að spennan í leikmönnum beggja liða er talsverð. En það sem ég væri nú til í að vera með ríkissjónvarpið á laugardaginn eða bara heima á íslandi í höllinni. Ég ætla að óska frömmurum góðrar lukku fyrir leikinn og biðja þá um að vinna þessa KA men

Annars er það að frétta að Árni og Harpa eru að fá lykilinn að nýju íbúðinni sinni núna og er hugsanlegt að þau flytji út um helgina... þar sem að ekkert hefur ennþá gerst í okkar íbúðarmálum þá þýðir þetta að ég og Fríða munum líklega flytja hluta af búslóðinni okkar hingað inn allavega rúmið, sjónvarpið, þvottavélina og þessar nauðsynjahluti þó er ég ekki að nenna að fara að bera þetta hingað upp aftur en ef ekkert gerist núna í byrjun mars er hugsanlegt að ég og Fríða verðum hérna fram yfir próf sem eru ekki búin fyrr en í júní. En annars á þetta allt saman eftir að koma betur í ljós. Svo er leikur við Holte um helgina og eigum við ennþá tölfræðilegan séns á því að fara upp en til þess þarf Holte sem hefur ekki tapað leik eftir áramót að tapa 3 leikjum af síðustu 5 og við að vinna rest.... reyndar ætlum við nú að gefa allt í þennan leik og taka þetta.

Frammarakveðjur

Skilaboð

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Átti ekki að fréttast. 

Ég tók eftir því að stóra ástin í lífi mínu ákvað að birta það með feitu letri að ég hafi látið hafa mig út í það að asnast uppá svið inná einhverjum Kareoki bar. Ég var að vonast til að þetta myndi ekki fréttast út fyrir hópin sem var á barnum þar sem ég reyni staðfastlega að halda uppi þeirri ímynd að ég syngi ekki. Þó svo að ég hafi asnast til þess að brjóta þá ímynd einu sinni skal fólk ekki láta sér detta það til hugar að ég ætli að gera þetta að reglulegum atburði. Vissulega munu sumir dyggir aðdáendur mínir verða sárir við þessar fréttir og missir þeirra af þessum atburði gæti haft lítil sem engin áhrif á líf þeirra. Til þeirra sem urðu vitni af þessum magnaða atburði (sem ég man takmarkað eftir) vil ég þakka dyggann stuðning og góða skemmtun síðustu helgi (líka þér Svandís þrátt fyrir að hafa verið komin í lestina).

Skál og góðar stundir.
Söngvarinn síkáti.


Skilaboð

Helgin sem er liðin og sú sem mun koma. MAGGI SÖNG í KAREOKE!!!! 

Sælir allir

Það er nú ekki hægt að segja annað en maður sé enn aðeins þreyttur eftir helgina. Hún byrjaði á föstudagskvöldið með "hygge" kvöldi hjá liðinu hans Magga. Það áttu nú bara að vera rólegt en raunin varð önnur hjá mér (í það minnsta) þannig að heilsan á laugardagsmorgunin var frekar slæm. En engu að síður fór maður upp á flugvöll að sækja krakkana. Reyndar komst Svandís ekki með mér þar sem hún var föst í lest á miðju Fjóni. Við vorum búnar að ákveða móttökur með viðeigandi höttum og fánum fyrir. Jæja en leiðin lág beint niður á Strikið þar sem hópnum var skipt niður í hópa til að ná sem skilvirkustum verslunarleiðangri. Eftir smá tíma í H&M var hópurinn orðin þreyttur á fatakaupum og settumst við inn á "Skildpadden", frábæran samlokustað. Þar var setið fram eftir degi með bjór og tilheyrandi en heilsan mín hafði skánað töluvert þá. Um kvöldið fórum við svo á Jensen's Buffhouse og eftir það var síðan ágætt Íslendinga djamm.

Næsta morgun vaknaði fólk tiltölulega snemma og var þá ákveðið að taka smá túrista pakka. Reyndar var Maggi ekki með en hann þurfti að fara niður til Láglands að keppa. En við fórum á "Den lille apotekere" sem er einn elsti veitingastaðurinn í Köben. Fengum þar rosalega góð Smörrebrod, en ég mæli sérstaklega með rauðsprettunni. Himnesk :). Eftir það var gengið um bæinn stoppað á hinum á þessum pöbbum og kaffihúsum, skoðað í Amelíuborg og fl. Um það leiti hafði ég fengið símtal frá Magga. þar sem kom fram að allir íbúar Amagerbrogade höfu tapað leiknum sínum um daginn og því jaðraði við sjálfsmorðs stemmingu heima fyrir. Því var ákveðið að fara einfaldlega ekki heim, en í staðin njóta frekar fleiri bjóra. Síðan römbuðum við á Ítalskan stað um kvöldmatarleitið sem seldi þessar snildar pítsur. Maggi hitti okkur þar en eftir það var kíkt á einn pöbb sem við sátum á til lokunar. Eftir það, þar sem fjör var komið í mannskapinn, var leiðinni haldið að Sam's bar á Strikinu, en það er karoke-bar. Þar voru ekki nema 2 aðrar manneskjur fyrir utan starfsmenn (og okkur), en ef það var þá ekki tækifærið til að sýna sönghæfileika sína, þá væri það aldrei. Því tóku 6 fullir og laglausir íslendingar sig til að halda uppi stemmingunni á barnum en reynar vorum við fljótlega sungin af sviðinu af starfsmönnum staðarins. En allir nema Diddi fóru a.m.k. einu sinni upp á svið og meðal annars Maggi. Nú hef ég í 2 ár reynt að beita öllum mínum brögðum, tælingum, mútum og hótunum til að fá Magga til að fara upp á svið og loksins, loksins fór hann (reynar að eigin vilja) upp á svið og söng lag fyrir mig í tilefni konudagsins. Reyndar söng hann "I still havn´t found what I am looking for" eftir U2, og ekki veit ég hvernig ég skal túlka þau skilaboð...... ;) Þrátt fyrir það er ég stolt af honum en hann söng hvað best af okkur þó það sé nú ekki mikið til að hreykja sér af.

Síðan fóru krakkarnir um morgunin og það var sofið fram eftir degi. Steffí og Sverrir voru síðan búin að bjóða okkur í bollukaffi á mánudagskvöldið, þar sem þetta er uppáhaldis hátíðisdagurinn minn á árinu. Rosa næs og þokkalega góðar bollur. Ég vil bara þakka Steffí innilega fyrir gott boð.

Í heildina litið var þetta alveg stór góð helgi, þó svo ég væri ekki viss um að ég væri manneskja í að gera þetta margar helgar í röð.

Reydnar kemur systir mín og vinahópur til Köben á morgun í helgardjamm svo eitthvað verður kíkt á lífið. Síðan er líka grímuball í bekknum á föstudagin sem ég var að hugsa um að fara á enn ég er ekki búin að ákveða búninginn. Á laugardaginn keppir Maggi svo á móti Holte í mjög mikilvægum leik en Holte er efsta liðið í riðlinum. Þannig að endilega senda baráttu straumana ykkar til Team Amager þá.

KV
Fríða
Skilaboð

föstudagur, febrúar 20, 2004

Íslandsfarar 

Jæja nú er loksins að koma helgi en plönin mín fyrir helgina hafa heldur betur breyst frá því ég bloggaði seinast. Er nefnilega búin að fá símtal eitt að öðrum frá mínum skyndiákvörðunarglöðu vinum að þeir séu að koma á morgun í heimsókn. Það var nefnilega svo gott tilboð hjá Express um helgina og vinaferð var skiplögð hingað út. Reyndar getum við ekki tekið á móti mörgun þar sem við erum ekki enn komin með neina íbúð. En Fanney, Svandís og Hugrún sofa bara á svefnsófanum (hann heldur alveg 200 kíló og nema þær hafa bætt ansi mikið á sig ætti það að ganga) en við ætlum að troða litla rúmminu inn í herbergið okkar líka og við Maggi sofum þar. Vona bara að Diddi fær gistingu hjá Birtu og Svenna en ef ekki þá reddum við því einhvern veginn. Því verður djammað mikið um helgina hjá mér en Maggi verður reyndar úti á landi að keppa allan sunnudaginn svo hann verður bara rólegur. Reyndar vildi ég óska að ég hefði mína eigin íbúð til að geta tekið almennilega á móti fólkinu en vonandi gerist eitthvað fljótlega í þeim málum.

En talandi um sunnudag þá er konudagurinn þá. Reyndar er ég búin að stinga upp á því við Magga að við færum hann fram á miðvikudag, þar sem við munum hittast svo lítið um daginn og vinirnir í heimsókn. Veit ekki alveg hvernig var tekið í þá hugmynd en hann er nú samt núna í þessum skrifuðum orðum að konugjafa-stússast, dúllan mín. Kvarta ekki yfir því :D.

Annars förum við í kvöld að hitta liðið en býst reynar við því að það verði bara rólegt sökum leiks á sunnudaginn. Jæja en ég vil bara óska öllum góðrar helgi.

Knús frá Baunalandi
Fríða
Skilaboð

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Bara að prufa hvort virki 

Hæ ég eyddi smá tíma í að reyna að breyta útlitinu á síðunni. Þetta er bara tímabundið útlit, þar til ég gef mér aftur tíma.
Skilaboð

Sól og hundayoga 

Sæl og blessuð mín kæru.

Það er búið að vera mjög fínt veður hérna í dag og ekki hægt annað að segja en það hafi bætt skap mitt og margra. Þó það sé kalt þá er svo gott að vakna í sól. Reyndar er þetta búin að vera frekar skrítinn dagur. Við Stina, skólavinkona mín, ákvaðum að prufa annan dæmatíma en sem við förum venjulega í en þá var kennarinn einum tíma á undan. Hann sagði að það væri tímaeyðsla að fyrir þá sem skildu dæmin að fara bara úr tíma og ég Stina voru þær einu sem fóru. Það er ekki annað hægt að segja en okkur leið eins og við værum rosa gáfaðar. Því voru nokkrir tímar í næsta tíma en Bryndís Beib var ákúratt í heimsókn í skólanum en hún er að hugsa um að koma hingað á næsta ári. Því þurfti nú að sýna henni mötuneyti skólans og fór því morguninn að mestu í kaffidrykkju. Gaman samt að hitta hana en Kristín var einmitt með henni. Fékk smá afturhvarf í viðskiptadeilarfílinginn. Ekki að það er mjög mikið af krökkum hérna úr HÍ heima.

Maggi er enn að vinna hópvinnu og get ég því loksins núna gefið mér smá tíma á netinu. Ég er einmitt að hlusta á upptökur frétta frá RÚV og hver annar en Hjalti Baldurs, gamall skólafélagi, var að tjá sig um þjónustugjöld banka á Norðurlöndunum. Reyndar finnum við mjög fyrir því hversu há gjöldin eru hérna úti í Danmörku. Síðan var ákúratt í þessu fréttaflutningur um nýjasta hundaæðið í Bandaríkjunum. Jú þeir hafa nefnilega áhyggjur af stressi hundanna sinna og eru þeir sendir í hundayoga!!!!!!! Aðeins í Bandaríkjunum.........

Annars lítið að frétta að íbúðarmálunum. Ætla núna að sækja um kollegíur og fara svo niður á skrifstofuna í næstu viku og grátbiðja þá að redda mér íbúð. Held að ég ætti að geta reddað nokkrum tárum ;-).

Síðan var frétt í gær á Amagerblaðinu þar sem minnst var á að markmennirnir Maggi og Árni hefðu verið að framkalla kraftaverk í seinasta leik... Það munar ekki um það. Reyndar stóðu þeir sig báðir mjög vel en það gerðu reyndar eiginlega allir í liðinu. Síðan er smá djamm eða "Hygge" kvöld á föstudaginn með leikmönnum og mökum.

hej, hej
Fríða
Skilaboð

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Búið að afskrifa Greve. 

Það er staðfest að við flytjum ekki til Greve.... eftir smá umhugsun var ákveðið að þetta væri alltof langt í burtu enda 6 zone þaðan í miðbæin og 7 zone í æfingu sem þýðir að ferðakostnaður minn og Fríðu hefði aukist um allavega 10.000 á mánuði. Einnig vildi konan leigja húsgögn með íbúðinni og fá þannig hærri leigu þannig að þetta var blásið af. En mér skilst að það sé ýmislegt í vinnslu núna og vonandi kemur eitthvað meira í ljós á næstu dögum.

Svo er enn einn liðsfundurinn í dag en stjórnin ætlar að koma og spjalla við okkur leikmennina um tja ég veit ekki hvað en þessi fundargleði Dana fer stundum soldið í taugarnar á mér því að þeir eru svo djöfulli duglegir við að spurja spurninga og það þurfa allir að fá að tjá sig þannig að þegar það er fundur með 20 leikmönnum og allir hafa eitthvað til málanna að leggja þá á þetta til að dragast á langinn. En nóg um það svo vil ég minna Pétur á það að Fram spilar við Val í kvöld í Valsheimilinu og hefst hann klukkan 19:15 vonandi munu stuðningsmenn Framara sjá hann á svæðinu í kvöld ;)

Hilsen.
Skilaboð

mánudagur, febrúar 16, 2004

Góður sigur!!! 

Í gær spiluðum við á móti toppliðinu í deildinni Team-Helsingi sem við töpuðum mjög ósangjarnt fyrir í fyrri umferðinni en sú varð ekki raunin í gær. Við hófum leikinn af miklum krafti og sigruðum 32-23 og má segja að sterk liðsheild ásamt frábærri vörn hafi skapað þennan sigur. Ég held að við höfum fengið 12 brottvísanir í leiknum á móti 4 hjá þeim og lentum 3 í þeirri stöðu að vera 4 á móti 6 en það kom ekki að sök í þessum leik. Reyndar lenti ég í því þegar rúmar 10 mín voru búnar af leiknum að fá skot í andlit frá hornamanni og fékk líka þær mestu blóðnasir sem ég hef nokkurn tímann fengið á ferlinum... held meira að segja að þetta sé í fyrsta skipti á æfinni sem ég fæ blóðnasir eftir skot í andlit en einhvern tímann er allt fyrst. Annars átti ég fínan leik í gær enda vörnin sterk sem og Árni sem kom inná eftir að ég meiddist svona ógurlega. Slæmu fréttirnar eru hinsvegar þær að Holte, liðið sem við erum í mikilli baráttu við að komast í umspilið um að komast upp um deild, vann sinn leik á móti HIK sem er líka í toppnum en Holte verður að tapa allavega 2 leikjum til að við eigum séns en við eigum ennþá eftir að spila við þá.

Eftir leikinn frétti ég svo að Fleming hefði fundið eina íbúð fyrir okkur í Greve sem er sko lengst út í sveit endalaust langt þangað. Okkur Fríðu líst nú ekki mjög vel á að vera að flytja eitthvert langt í burtu þegar maður býr svona nálægt miðbænum auk þess sem að ég sé þá framá klukkutíma ferðalag á æfingar og svo heim aftur með lest og strætó og svakalegan ferðakostnað fyrir okkur en í dag erum við að borga 600 kr á mánuði í græna kortið hugsa að þessi kostnaður gæti farið uppí 1600 ef við flytjum þangað. Ef við hefðum bíl þá væri þetta kannski þægilegra en við ætlum nú samt að kíkja á pleisið og ef þetta er einhver draumaíbúð á draumastað hugsum við kannski málið betur. Reyndar sagðist hann vera með 2 aðrar íbúðir líka sem hann hafði ekki fengið svar um vonandi eru þær kannski eitthvað nær.

Svo vil ég óska Frömurum til hamingju með að vera komnir í bikarúrslit veit að þetta eru gamlar fréttir en maður hefur verið frekar latur við að blogga enda ekki með netið heimafyrir og lítið að gerast en lofa því að skrifa um leið og við heyrum meira um íbúðiarmálin okkar.

Bless í bili.
Skilaboð

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Bakverkir og húsnæði 

Sæl allir saman!

Við erum að vera búin að jafna okkur á eftirverkum Þorrablótsins og enn ein vikan er hafin. Það er búið að vera reyndar frekar kalt hérna seinustu daga en enga síður falllegt veður. Reyndar sendi Margtét mér mynd af Íslandi fyrir stuttu þar sem Ísland er allt þakið snjó svo ég get ekki kvartað yfir veðrinu hér. Ef þið viljið sjá hana smellið þið þá hér.

Nú er komin smá reynsla á svefnsófann og við Maggi erum sammála um að hann er í harðari kantinum. Bakið á okkur báðum er byrjað að finna fyrir lélegri svefnaðstöðu seinustu daga. Reyndar eigum við von á svari á einni íbúð á næstu dögum, 58 fermetrar hér á Amager og ef heppnin verður með okkur ættum við að geta flutt fljótlega inn :)

Jæja hef ekkert meira að segja í bili.

Kv
Fríða
Skilaboð

mánudagur, febrúar 09, 2004

Gott blót. 

Ég og Fríða skelltum okkar á Þorrblót Íslendingafélagsins síðastliðinn laugardag og var það hin besta skemmtun. Reyndar hófst dagurinn á því að við fórum á fætur fyrir allar aldir og skelltum okkur uppí Lungby til að borga svefnsófann okkar. Svo fór ég heim til að bíða þess að taka á móti honum á meðan Fríða skellti sér í Fisketorvet að skoða föt fyrir kvöldið. Reyndar hringdi nú Þorvaldur bílstjóri svo í mig og spurði hvort það væri í lagi að hann kæmi með hann á sunnudaginn þar sem hann væri orðinn of seinn í upphitun fyrir Þorrablótið og var það bara hið besta mál. Eftir nokkra bjóra og eina verslunarferð(til að kaupa meiri bjór) var skellt sér í dressið og haldið til Sverris og Steffí en þau héldu upphitunarpartý með mat og öllu tilheyrandi og verð ég að hrósa Steffý sérstaklega fyrir frábæra Sósu með kjötinu. Eftir mat var svo bara drukkið og spjallað og fólk aðeins að komast í gírinn fyrir kvöldið en um klukkan hálf ellefu fór fólkið að koma sér á blótið sem var jú haldið í miðri Christianiu. Hvar annarsstaðar er betra að koma fyrir 1500 dauðadrukknum íslendingum en í miðri Christianiu ég hef reyndar ekki heyrt neinar fréttir um annað en að allt hafi gengið vel en mér fannst þetta allavega frekar skondið. Sumir barþjónarnir þarna í salnum virkuðu líka frekar tæpir enda örugglega búnir að lifa hippalífi alla ævi.
Jæja maður rakst náttúrulega á lifandis ósköp af fólki þarna og voru margir hverjir bara í smá helgarferð með viðkomu á þessu fræga bóti. Skímó hélt svo uppi stemningunni og tókst þeim bara ágætlega upp reyndar var kallinn frekar takmarkað á dansgólfinu meira svona að rölta og spjalla við liðið en Fríða hélt uppi heiðrinum með góðri sveiflu. Svo hætti reyndar hljómsveitin að spila klukkan 2 og margir drifu sig niðrí bæ en einhverra hluta vegna ílengdist ég í Christianu að spjalla við fólk og klukkutíma eftir að hætt var að spila ákvað ég að það væri ágætt að koma sér heim.
Dagurinn í gær var svo frekar dapur fór í ekkert eins og oft vill verða eftir góðar skemmtanir.... reyndar fengum við svefnsófann okkar og náðum ég og árni að drösla honum upp tröppurnar á Amagerbrogade og inní herbergið okkar. Svakalega getur ein svona mubla verið þung náttúrulega fullt af járni og svoleiðis þar sem þetta er nú svefnsófi en ég náði að tjasla honum saman og ég og Fríða sváfum á honum í nótt.

Kveð í bili.
Skilaboð

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Skólinn byrjaður 

Sælir

Ég byrjaði í skólanum á mánudaginn og leggst önnin bara vel í mig. Reyndar hef ég verið í baráttu við LÍN í dag en þeir segja að lánið mitt sé afgreitt en staðan mín á bankareikningnum segir annað.... ekki að ég lái þeim að gera stundum vitleysu þar sem álágaið á þeim hlýtur að vera mikið í byrjun árs. Annars er lítið sem ekki að frétta af íbúðarmálunum

Jæja ætla að hætta núna. Ætla að skreppa í mat
kv
Fríða
Skilaboð

mánudagur, febrúar 02, 2004

Súrsætir dagar... 

Góðan dag allir saman í dag er rigning og hefur eiginlega rignt alveg heilan helling undanfarið. Ég og Fríða erum flutt á Amagerbrogade og bíðum eftir að fá góðar fréttir frá liðinu um að íbúðarmálinn séu leist vonandi gerist það sem allra fyrst. En flutningarnir á föstudaginn gengu ekki alveg áfallalaust fyrir sig þar sem hurðin á nýja skenknum okkar skemmdist aðeins og einnig náðu að koma smá rispur á nýja sjónvarpsskápinn okkar en vegna tímaskorts þá náðum við ekki að pakka öllu rosalega vel inn. En það ætti að vera hægt að kaupa nýjan hlut í skenkinn okkar og þessar rispur eru nú ekkert svo greinilegar en samt frekar leiðinlegt þar sem þetta er ekki orðið mánaðargamalt. En nú liggur þetta allt saman í bílskúr og bíður þess að komast í nýja íbúð sem við vonandi fáum sem fyrst.

Það var leikur um helgina hjá okkur við Ydun sem vannst nokkuð örugglega 34-26 held ég reyndar var þetta komið út í smá rugl undir lokinn og bæði lið hætt að spila nokkra vörn þannig að það var skorað mikið síðustu mínúturnar í leiknum. Kallinn átti ágætan leik náði að taka flesta af mínum boltum og nokkur dauðafæri en samt enginn toppleikur en baráttan hjá okar mönnum var til staðar og lokaði fúnkeruðum við sem lið en ekki hópur einstaklinga. Þetta var mjög gott fyrir móralinn eftir krísu undanfarnar vikur sem hefur leitt til þess að 2 byrjunarliðsmenn og lykilpóstar í vörninni okkar hættu vegna ágreinings við stjórn liðsins. Mér finnst það frekar skrítið að menn sem eru í áhugamannabolta og því að þessu ánægjunar vegna hætti bara á miðju tímabili vegna þess að þeim finnst stjórnin ekki hafa gert allt sem var lofað. Ég skal alveg játa það að þeir hafa ekki staðið við allt en maður er nú svo sem vanur því að heiman. Samt sitjum við ennþá í 4 sæti deildarinnar og fylgjum toppliðunum fast á eftir en eigum eftir að spila innbirðis við þau og ef við náum hagstæðum úrslitum úr þeim leikjum er aldrei að vita nema að okkur takist að komast í umspil en til þess að það náist þarf mannskapurinn sem eftir er að þjappa sér verulega saman og helst má enginn meiðast.

Annars er ekkert merkilegt að frétta nema það að á laugardaginn hringdi gamall bekkjarfélagi minn úr Versló Guðjón að nafni og bauð mér, Fríðu og Óla vini mínum í partý á Grönjards kollegíið og kíktum við yfir. Þar sem kollegíið er á Amager og maður er svo nýskur þessa dagana löbbuðum við yfir með viðkomu á Kebab stað fyrir Óla og tók þessi ganga einhverjar 20 mín í grenjandi rigningu og þegar maður mætti á svæðið var maður endalaust blautur. En við komumst sam sem áður heilu á höldnu og þekkti maður ekki marga en samt voru nokkrir þarna sem maður kannaðist við og var þetta bara hið ágætasta partý svona týpískt íslenskt partý þar sem allir voru orðnir dauðadrukknir og menn farnir að blasta Prodigy og Blur til skiptis og hoppandi á dansgólfinu eins og vitleysingar. Ég var reyndar bara í rólegu stemmninguni þar sem ég átti leik daginn eftir en ég og Fríða vorum þarna til klukkan 1 og löbbuðum þá heim en þá hafði stytt upp. Svo er fríhelgi í boltanum næstu helgi og þorrablót Íslendingafélagsins en þá verður tekið á því en skímó leikur fyrir dansi (Vonandi að þeir taki bara cover lög).

Bless í bili.


Skilaboð

This page is powered by Blogger. Isn't yours?