<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 29, 2004

2 tímar í Fríðu 

Og kallinn búinn að öllu. Taka til, þvo þvott, þrífa og skúra (meira að segja klósettið) og búinn að versla í matinn. Nú slappar maður bara af þangað til ég fer að ná í hana út á völl.

Kv Maggi

Skilaboð

5 tímar í Fríðu! 

Jæja þetta styttist alveg óðfluga kallinn búinn að þvo og taka til en er að klára að þrífa. Svo þarf maður að fara út í búð og versla eitthvað í matinn handa okkur fyrir kvöldið og svo koma sér út á völl. Dugnaðurinn er alveg gríðarlegur.

Skilaboð

10 tímar 

Jæja ekki nema 10 tímar þar til Fríða kemur heim.

Kallinn vaknaði líka fyrir klukkan 9 í morgun og er að þvo þvott og taka til núna.
Skilaboð

mánudagur, júní 28, 2004

Go Baros 

Jæja kallinn skellti sér á Ráðhústorgið í gær ásamt 15.000 kolvitlausum Dönum og nokkrum Íslendingum og var alveg gjörsamlega stappað á torginu og stemningin eftir því, tja eða allavega í fyrrihálfleik. Slökknaði nú líka mjög fljótt á þeirri stemningu í seinni hálfleik þegar Milan nokkur Baros Liverpool maður með meiru setti 2 mörk á 2 mínútna kafla og gerði út um leikinn. Auðvitað hélt maður með Dönum í leiknum en það er samt erfitt að halda ekki með liði sem spilar jafn skemtilegan fótbolta og Tékkarnir og ætla ég að styðja þá út keppnina. Reyndar er Baros alveg búinn að vera að meika það hjá mér í managerleiknum hjá DR (Danska ríkissjónvarpinu) og er kallinn hvorki meira né minna en í 176 sæti af 80.000 þáttakendum. Nokkuð góður árangur þar ég þarf bara á smá heppni að halda í síðustu 3 leikjunum til að eiga möguleika á sigri en hann er samt ennþá fyrir hendi þó svo að möguleikarnir séu í raun litlir. En ef ég næ að klára í topp 100 þá verð ég mjög sáttur.

Svo er maður líka kominn með svo mikinn fiðring í tærnar eftir að hafa horft á allann þennan fótbolta að ég get ekki beðið eftir því að skella mér í bolta (keypti mér meira að segja takkaskó um daginn) og ætla ég að skella mér á æfingu í kvöld með FC Guðrúnu.

Nú eru ekki nema rúmir 30 tímar þar til hún Fríða kemur heim og er ég byrjaður að telja niður tímana þangað til hún kemur heim. 10 dagar einn í Danmörku virka frekar langur tími og spurning hvort að hún komi með óvæntan glaðning handa mér eins og ég gerði fyrir hana þegar ég fór til Íslands.

Annars er sumarið ekki komið og virðist ekkert vera á leiðinni bara spáð rigningu og 16 stigum út vikuna.

Bið að heilsa öllum sem lesa (og hinum reyndar líka).

Kv. Maggi
Skilaboð

sunnudagur, júní 27, 2004

Stórleikur í kvöld!!! 

Danmörk - Tékkland í kvöld og eftirvæntingin rosaleg og ætla ég að skella mér á Ráðhústorgið til að upplifa leikinn á risaskjá ásamt nokkrum þúsund Dönum. Reyndar finnst mér það mjög slæmt að þeir þurfi að mæta Tékkum í undanúrslitum þar sem ég ákvað það í upphafi keppninnar að styðja Tékka enda spila þeir mjög skemmtilega knattspyrnu. Taktíkin að skora fleiri mörk en andstæðingurinn til að vinna leikinn býður nefnilega uppá slatta af mörkum. Ef Danir detta hins vegar út í kvöld verða ekki fleiri ferðir á þessa biluðu stemningu sem myndast á Ráðhústorginu þannig að þetta er mjög erfitt val. Vona bara að það verði skorað fullt af mörkum og leikurinn verði spennandi.

Kv. Maggi
Skilaboð

laugardagur, júní 26, 2004

Loksins búinn!! 

Jæja þá er maður loksins búinn í skólanum og var þetta lengsta skólaönn sem ég hef nokkurn tímann upplifað enda byrjaði ég 12 janúar sem gera rúmlega 5 og hálfan mánuð og þar af var próftörnin og lokaverkefnið tæpir 3. Jæja en þetta er allt afstaðið núna og á nógu að taka. Því nú þarf ég að fara að gera íbúðina upp srapa, spasla og mála en sumar skemdirnar hérna eru rosalegar þetta er ekkert smá naglagat sem þarf að laga heldur sprungur í lofti og hálfur veggur sem ég átta mig nú ekki ennþá á hvað smiðurinn og rafvirkinn voru að gera þegar þeir skiptu um rafmagnstöflu hérna.

Nú styttist líka í það að hún Fríða mín komi aftur til mín en maður er nú bara búinn að vera í rétt rúma viku einn í Danaveldi sem getur verið frekar þreytandi sérstaklega á kvöldin þegar maður nennir ekki að læra. En hún er semsagt búin að vera í því að redda okkur bíl fyrir næsta mánuð þar sem við ætlum í evrópureisuna okkar.

Veðrið er annars ömurlegt rigning, rigning og meiri rigning hitinn svona frá 14 og uppí 18 gr. og virðist ekki ætla að verða lát á þessu, hélt að ég byggi í útlöndum þar sem alltaf er gott veður en því miður.

Kv. Maggi
Skilaboð

laugardagur, júní 12, 2004

Harry Potter og Cardigans 

Sælir góðir bændur og aðrir velgjörðarar!

Allt enn gott að frétta héðan frá Amager. Í gær gerðist hann Maggi minn svo sætur og kom mér á óvart með skipulagðri dagskrá í gærkvöldi. Tilefnið var það að við höfum haft svo lítin tíma fyrir okkur sjálf og sjáum fram að hittast lítið á næstunni þar sem Maggi er að vinna á fullu að verkefni og skilar því inn daginn sem ég fer heim.

Jæja en kvöldið byrjaði á boði í bíó á nýjustu Harry Potter myndina í Empire-bíóið. Það sem er sérstak við það bíó er að í öftustu röðinni eru sæti sem kallast 'kysse'. Þessi sæti eru tvöföld og eru hönnuð svo léttara sé fyrir pör að kúra saman yfir bíómyndunum og auðvita hafði kallinn pantað miða í þessi sæti. Og síðan eftir hina ánægjulegustu bíóferð röltum við niður í miðbæ.

Ferðinni var haldið í Tívólí þar sem Cardigans voru með tónleika. Þar sem við vorum í fyrri kantinum fengum við okkur að borða og roltum síðan um Tívolíið. Við fórum meðal annars í vatnsbyssukeppni milli okkar sem fólst í því að hitta á hreyfanlegt skotmark. Okkur báðum til undrunar vann ÉGGGGG.... sem er mjög skítið miðað við hversu skelfilega óhittin ég er. En þegar líða tók á kvöldið fylltist Tívolíið smá saman. Held að ég hafi aldrei verið þarna ásamt svona miklum fjölda af fólki. Hugsa að Cardigans vissu ekki að þau hefðu svona mikið af aðdáðendum. Tónleikarnir voru alveg ágætir en ég komst að því að ég þekki nú ekki mikið af lögum Cardigans. Annars segi ég nú ekki að við Maggi myndum borga okkur inn á tónleika með þeim enda ekki mikil stuðhljómsveit. En kvöldið var hið skemmtilegasta.

Síðan erum við búin að ákveða að fara á Simon & Garfunkel tónleikana í Parken í júlí.

Fríða
Skilaboð

miðvikudagur, júní 09, 2004

Menningamismunur 

Sælir og blessaðir.

Mánuðurinn hjá okkur báðum hefur verið nokkuð strembinn fyrir okkur bæði tvö en sem betur fer var törnin hjá mér búin seinsta fimmtudag. Þá skilaði minn kæri hópur hópverkefni um 'Concentration in the Enterprise Resource Planning Industry' upp á 75 blaðsíður. Eins og þið getið ykkur réttilega um þá var þetta verkefni eins skemmtilegt og titillinn gefur til kynna. Og það sem ég hef lært þennan mánuð eftir að hafa gert tvö stór verkefni með mínum kæra hóp að það er ávallt varhugavert að hafa Dani sem meirihluta hóp í hópverkefnavinnu. Ég vann með þessum sama hóp í seinustu önn og gekk þá samstarfið svona ljómandi vel en við gerðu þau aumu mistök að taka inn auka Dana inn í hópinn. Maður hefði nú haldið að það hefði verið í lagi þar sem Danir hafa þann orðróm að þeir séu góðir að vinna í hóp.... en því miður hef ég og margir sem hafa verið í mínu sporum að svo sé ekki.

Í fyrsta lagi: Það er gott að ræða um hlutina þegar unnið er saman í hóp en þeir elska það og þeir tala og tala og tala og tala.... og þegar maður hefur átt í 4 klst samræðum um eitt auka atriði í verkefninu sem hefið geta tekið 10 min að komast niðurstöðu það er erfitt að sjá skilvirkina í hópstarfinu

Í öðru lagi: Þeir eru góðir í að segja hvað þeir ætla að gera en gera það svo á seinustu stundu. Við unnum þannig að við settum 'deadline' á vissa hluta verkefnisins en nærri því alltaf, þó maður sjálfur var búin að vaka lengi frameftir til að klára sitt, þá komu þeir bara með lista hvað þeir ætluðu að gera. Og þar sem Danir dýrka að gagnrýna, og geta tekið gagnrýni nokkuð vel (samt ekki alltaf) var allur tími tekin í það að gagnrýna hverja einustu kommu hjá okkur hinum sem höfðu gert sitt en erfitt að fyrir okkur að setja nokkuð út á þeirra verk þar sem það sem við höfðum engan texta í höndunum heldur bara óljósa hugmynd um hvað myndi vera skrifað þarna.

Síðan var minn hópur bara það óheppinn með dani að þeir tóku sig saman og fóru einir út í horn og tóku aðalákvarðanir um verkefnið svo það var erfitt undir lokin að tala um hópvinnu. En það er nú ekki samt hefðbundið hér að gera svo. Ekki að ég tók þetta mikið inn á mig þegar við kláruðum okkar fyrra verkefni í byrjun mai og ákvað að taka restina að hópvinnunni með stóískri ró. En á fimmtudaginn vorum við, þeir hópmeðlimir sem voru ekki danskir, sammála um að þetta hefði verið erfiðista hópvinna sem við höfðum lennt í. Ekki að ég hef ekkert að segja út á danina persónulega, út fyrir hópvinnu, en þeir eru hinir ágætustu kunningjar en þetta verður vonandi í seinasta skiptið sem ég vinn með fleirum en einum dana í hóp. Annars á ég bara eftir eitt hóp munnlegtpróf með þessum hóp og svo ég komin í sumarfrí.

Annars verðum hann greyið Maggi minn á fullu til 25. juni svo ég hef ákveðið að fara heim þann 18. juni og vera í 11 daga. Hlakka ekki neitt smá til, komast heim í mömmumat og vinadjamm.
Skilaboð

This page is powered by Blogger. Isn't yours?